Forsíða            Fréttir            Stefnan            Hreyfingin            Á döfinni
Gefum nýju fólki tækifæri

Nú eru sveitarstjórnarkosningar á næsta leiti. Sú ánægjulega þróun hefur orðið að almennir borgarar hafa stigið fram og myndað nýja lista í hinum ýmsu sveitarfélögum, lista sem ekki tengjast fjórflokknum svokallaða. Í Reykjavík eru til að mynda fjögur framboð sem ekki tengjast gömlu flokkunum, í Kópavogi þrjú, eitt í Mosfellsbæ og Garðabæ, tvö á Álftanesi, tvö á Akureyri og svo mætti lengi telja. Fyrir síðustu alþingiskosningar tók ég þátt í nýju framboði til Alþingiskosninga, Borgarahreyfingunni. Það var stofnað stuttu fyrir kosningar og á undraskömmum tíma tókst hóp af fólki úr ólíkum áttum að setja saman lista með 126 frambjóðendum, safna ótal undirskriftum meðmælenda, opna kosningaskrifstofur, vinna stuðning 7,2% kosningabærra manna á Íslandi og koma fjórum mönnum á þing.

Við sem tókum þátt í starfi Borgarahreyfingarinnar fengum að heyra það oft á dag að lítil, ný framboð kæmu aldrei manni að, það væri sóun á atkvæðum að kjósa okkur og að baráttan væri vonlaus enda lýðræðisþröskuldurinn hár – nauðsynlegt væri að ná 5% fylgi á landsvísu til að koma manni að. Það var ekki fyrr en skoðanakannanir sýndu að 5% fylgi væri raunhæft markmið að við tókum stökkið. Framan af var ýmist talað um okkur sem örframboð eða smáframboð en málið er að það kemur ekki í ljós fyrr en talið er upp úr kjörkössunum hvaða framboð eru stór og hver þeirra eru smá. Nýtt framboð getur vel orðið stórt alveg eins og það er vel hugsanlegt að rótgróinn flokkur komi ekki manni að. Þegar Borgarahreyfingin klofnaði fengum við að heyra að aldrei aftur myndu nokkrir ráðast í að stofna stjórnmálahreyfingu á nýjan leik. Eins og sjá má er það ekki rétt, almannahreyfingar blómstra sem aldrei fyrr. Nýtt framboð er nú raunhæfur og gerlegur möguleiki.

Þótt kosningar til sveitarstjórnar séu einfaldari í framkvæmd en kosningar til alþingis er það afrek að koma saman lista án alls þess stuðnings og þekkingar sem er óneitanlega að finna innan hefðbundinna stjórnmálaflokka. Fólkið frá nýju framboðunum er eins og þú. Það hefur ekki fengið sérstaka ráðgjöf um útlit og framkomu, það er ekki þjálfað í ræðumennsku og að öllum líkindum er ekkert almannatengslafyrirtæki að gefa því góð ráð. Engu að síður veit það vel hvernig er að vera íbúi í sínum bæ eða borg, hvað tekur langan tíma að skutla krökkunum í íþróttir og hvernig gengur að ná endum saman. Það býður sig fram vegna þess að það vill hafa áhrif á sitt nærumhverfi, taka til hendinni og gera bæinn sinn að betri stað. Og rétt eins og meirihluti landsmanna hefur það misst trúna á að hefðbundnir stjórnmálaflokkar séu að vinna að almannahag. Þess vegna skulum við ekki hika við að gefa nýju fólki tækifæri, gefa þeim atkvæði okkar. Þau geta varla verið verri en það sem fyrir er.

Margrét Tryggvadóttir

 
Senda á Facebook

Hvað getum við gert?