Forsíða            Fréttir            Stefnan            Hreyfingin            Á döfinni
Hreyfingin

Uppruni

Hreyfingin á rætur sínar að rekja til þeirra umbrotatíma á Íslandi sem hófust við fall íslensku bankana í október 2008. Sá atburður og atburðarrásin í kjölfarið leiddi í ljós að hvorki íslensk stjórnvöld né íslenskt viðskiptalíf var fært um að sinna hlutverki sínu og að gangverk stjórnmála og viðskiptalífs var í raun ónýtt.

Strax í októbermánuði hófst umræða um stöðu Íslands og íslenskra stjórnmála á fundum, spjallþráðum, blogg- og fésbókarsíðum og fljótlega voru haldnir skipulegir fundir óskipulegra hópa víða um höfuðborgarsvæðið og á landsbyggðinni.  Mikil pólitísk vakning átti sér stað og svo kallaðir Borgarafundir spruttu upp og fjölmennti almenningur á þá og lét óspart álit sitt á ástandinu í ljós. Eins voru haldnir skipulegir hugmynda- og aðgerðafundir þar sem aðgerðir og mótmæli voru rædd.

Eftir því sem á leið þá söfnuðust hópar og fólk aðallega á tvo staði í Reykjavík sem urðu nokkurs konar þungamiðja aðgerða næstu mánaða. Í Borgartúni 3 þar sem Borgarafundir höfðu aðstöðu sína hittist fjöldinn allur af mismunandi hópum með mismunandi áherslur og í húsnæði ReykjavíkurAkademíunnar við Hringbraut varð til önnur miðstöð funda þar sem einnig voru skipulagðar aðgerðir og mótmæli.

Að loknum stórum fundi í ReykjavíkurAkademíunni í janúar 2009 þar sem fulltrúum allra þeirra mismunandi hópa sem náðist í var boðið, komst starfið á ákveðnari farveg. Á þessum fundi hafði hver fulltrúi tvær mínútur til að segja frá sínum hóp, áherslum og framtíðarsýn og þegar farið var yfir fundargerðina í lokin kom í ljós að langflestir voru að tala um nokkurn veginn það sama, róttækar lýðræðis- og stjórnkerfisumbætur.

Mestu mótmæli Íslandssögunnar hófust svo með Búsáhaldabyltingunni, umsátri almennings um Alþingishúsið við setningu þingsins þann 20. janúar.  Mannfjöldinn, sem barði saman búsáhöldum af miklum krafti, krafðist afsagnar ríkisstjórnarinnar. Mótmælin stóðu linnulítið í sex sólarhringa eða þar til ríkisstjórnin sagði af sér og boðað var til kosninga í apríl.

Í byrjun febrúar voru samtökin Samstaða – bandalag grasrótarhópa stofnuð og var öllum þeim sem komið höfðu á stóra fundinn boðið að vera með.

Samstaða hafði það að markmiði að vera regnhlífarsamtök grasrótarhópa sem höfðu það að markmiði að vinna að lýðræðisumbótum og upprætingu spillingar í stjórnkerfinu.  Eitt af tækjum sem Samtöðu var ljóst að yrði að nota var sá vettvangur sem lýðræðið bauð uppá með beinni þáttöku í stjórnmálum. Í framhaldinu og að loknum miklum fundahöldum var ákveðið að stofna pólitískan arm Samtöðu sem tæki þátt í kosningum sem boðaðar höfðu verið 25. apríl 2009. Á fundi í Borgartúni 3 þann 23. febúrar 2009 var svo Borgarahreyfingin formlega stofnuð.  Í stjórn voru Baldvin Jónsson, Birgitta Jónsdóttir, Guðni Karlsson, Gunnar Skúli Ármannsson, Heiða B. Heiðarsdóttir, Helga Þórðardóttir, Herbert Sveinbjörnsson, Lilja Skaptadóttir, Sigurður Hr. Sigurðsson, Sigurlaug Ragnarsdóttir og Örn Sigurðsson. 

Við vinnu stefnuskrárinnar kom fljótt í ljós að stórar stefnuskrár um allt milli himins og jarðar féllu ekki vel í kramið og að nóg væri af hefðbundum stjórnmálasamtökum.  Niðurstaðan var því að Borgarahreyfingin myndi fyrst og fremst beita sér fyrir róttækum lýðræðisumbótum, breytingum á stjórnsýslu og átaki til hjálpar skuldavanda heimilanna. Borgarahreyfingin skilgreindi sig ekki sem hefðbundinn stjórnmálaflokk heldur sem “hit and run” framboð sem færi af stað með ákveðin fá markmið og þegar þeim væri náð, eða augljóst væri að þau næðust ekki, myndi framboðið leggja sig niður.

Með gríðarlegu átak fjölmargra sjálfboðaliða tókst að koma framboðinu á dagskrá, leigja húsnæði á Laugavegi 40 fyrir kosningaskrifstofu og skipuleggja starfsemina. Skipulagið á starfseminni var mjög opið og við ákvarðanatöku var leitast við að leysa ágreiningsmál með samþykki allra (consensus) en ekki með atkvæðagreiðslum og meirhlutavaldi. Flatur strúktúr var tekinn upp og var enginn formaður, engar stöður eða titlar heldur voru þeir sem töluðu máli Borgarahreyfingarinnar hverju sinni kallaðir talsmenn. Fjöldi fólks vann baki brotnu og eftir skipan kosningastjóra fyrir framboðið varð fljótt ljóst að það tækist að bjóða fram í öllum kjördæmum landsins.

Borgarahreyfingin átti aldrei neina peninga en náði inn fyrir nauðsynlegum kostnaði með skilyrtum lánum og framlögum frá einstaklingum.  Borgarhreyfingin mætti mikilli velvild og allur skrifstofubúnaður og húsgögn var fengið að láni eða gefið og nágrannar framboðsins á Laugaveginum voru mjög örlátir og margir bakkar af bakkelsi og öðrum mat rötuðu inn á kosningaskrifstofuna án þess að endurgjalds væri krafist. Öll kosningabáráttan var unnin í sjálfboðavinnu og tugir manna og kvenna voru óþreytandi við að ferðast um borgina og landið með bæklinga og fundi. Í kosningunum sjálfum náðist svo fáheyrður árangur og fékk Borgarahreyfingin 7,2% atkvæða og fjóra þingmenn kjörna.

Fljótlega í kjölfar kosninganna kaus einn þingmanna að segja sig frá þinghópnum og gerðist óháður þingmaður. Ágreingur innan Borgarahreyfingarinnar jókst einnig og magnaðist á endanum upp í deilur um eðli Borgarahreyfingarinnar sem stjórnmálaafls. Á landsfundi Borgarahreyfingarinnar í september 2009 var þessi ágreiningur orðin það djúpstæður að hópur fólks, þ.á.m. þingmennirnir og tveir varaþingmenn töldu sér ekki lengur fært að starfa undir merkjum Borgarhreyfingarinnar, sögðu skilið við hana og stofnuðu í framhaldinu Hreyfinguna.

 

Samþykktir og stefnuskrá

Í samþykktum Hreyfingarinnar kemur fram að markmið Hreyfingarinnar er að koma málefnum fyrirliggjandi stefnuskrár í framkvæmd.  Stefnuskráin er sú sama og Borgarahreyfingin lagði fram og þingmenn Hreyfingarinnar eru kjörnir út á.  Hreyfingin skal leggja sig niður og hætta störfum þegar markmiðunum hefur verið náð eða augljóst er að þeim verði ekki náð.  Líta má á stefnuskránna sem tékklista. 

Aukamarkmið Hreyfingarinnar er að aðstoða grasrótarhreyfingar á Íslandi við ná fram sínum markmiðum.  Í því skyni býðst grasrótarhreyfingum aðgangur að þingmönnum Hreyfingarinnar og starfsmanni.

Kjarninn í stefnuskrá Hreyfingarinnar felst í róttækum lýðræðisumbótum, neyðarráðstöfunum í þágu heimila og fyrirtækja vegna hruns efnahagskerfisins, rannsókn á hruninu og víðtækri endurskipulagningu allrar stjórnsýslunnar.

Hreyfingin skilgreinir sig sem valkost við það flokkspólitíska kerfi sem hefur skotið rótum á Íslandi og margir telja að eigi ríkan þátt í því hvernig fyrir þjóðinni er komið sem stendur.  Ráðandi hugmyndafræði um pólitísk völd byggir á lagskiptu kerfi stjórnmálaflokkanna þar sem almennir félagsmenn eru í lægsta þrepi, þar fyrir ofan eru oft nefndir og ráð, svo stjórn og á toppnum trónir flokksformaður; leiðtoginn sem fylgja ber.  Skipulag Hreyfingarinnar gerir hins vegar ráð fyrir flötu skipuriti; formannsleysi, valdlítilli stjórn og engu formlegu félagatali þar sem allir stuðningsmenn hafa jafnan rétt til áhrifa. Hægt er að skrá sig á póstlista Hreyfingarinnar til að fá reglulegar fréttir af starfseminni og taka þátt í henni.   

Veigamikill þáttur í skipulagi Hreyfingarinnar er hlutlaus framkvæmdastjóri hennar sem heldur utan um daglegt starf.  Starfsemi Hreyfingarinnar miðar að því að knýja á um breytingar bæði innan þings og utan.  Reglulega eru haldir opnir fundir á vegum Hreyfingarinnar.  Engar forkröfur eru gerðar til þeirra sem kjósa að starfa með Hreyfingunni aðrar en að viðkomandi styðji markmið hennar og stefnuskrá.  Þátttaka í öðrum stjórnmálasamtökum er ekki fyristaða.  Hreyfingin starfar á þverpólitískum forsendum í öllum málum á grundvelli málefnanna sjálfra og skilgreinir sig hvorki til hægri né vinstri.

 

Þinghópur

Þingmenn þeirra stjórnmálasamtaka sem sitja á Alþingi mynda þingflokka.  Vegna þess að Hreyfingin skilgreinir sig sem valkost við flokkakerfið hafa þingmenn Hreyfingarinnar ákveðið að starfa saman á Alþingi undir nafninu þinghópur. Í raun er Þinghópur Hreyfingarinnar sjálfstætt starfandi félag með sér kennitölu og samþykktir.  Ástæðan fyrir þessu er fyrst og fremst sú að samkvæmt lögum um fjármál stjórnmálasamtaka er þingflokkum úthlutað sérstaklega úr ríkissjóði samkvæmt ákveðnu fyrirkomulagi. Rétt er að taka fram að Hreyfingin hefur barist fyrir því að reglum um fjármál stjórnmálasamtaka verði breytt til samræmis við það sem fram kemur í stefnuskránni.  Þingmenn Hreyfingarinnar eru Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari.

Þinghópur Hreyfingarinnar vinnur að stefnumálum Hreyfingarinnar á Alþingi. Þetta gera þingmenn bæði með framlagningu formlegra þingmála og með því að stunda óhefðbundin vinnubrögð, til að mynda í samtölum við aðra þingmenn og á fundum.  Markmiðið er að innleiða nýja hugsun á Alþingi.  Þinghópurinn starfar líkt og Hreyfingin sjálf samkvæmt hugmyndum um flatan strúktúr.  Embætti formanns þinghóps er því róterandi embætti sem felur í sér talsmennsku fyrir þinghópinn á þingflokksformannafundum og foringjafundum. Tekur hver þingmaður að sér þessa vinnu eitt ár senn.  Þinghópsfundir eru haldnir á föstum tíma tvisvar í viku.

 

Starf Hreyfingarinnar

Hreyfingin er lítið afl og þinghópurinn fámennur. Þar af leiðir að völdin sem slík eru ekki mikil en reynt er að nýta þau tækifæri sem gefast til að koma nýjum hugmyndum í umræðuna, planta fræjum í huga þingmanna og færa til þröskulda í mjög formföstu skipulagi þingsins sem og í hugsum þingmanna um lýðræði og samvinnu. Reynt að hugsa út fyrir rammann og vinna út frá málefnum en ekki flokkslínum, enda er Hreyfingin ekki stjórnmálaflokkur í hefðbundnum skilningi. Reynt er að afhjúpa og draga fram galla í stjórnkerfinu og leita lausna til að gera það ásættanlegt. Auk þess að reyna að skapa samstöðu meðal þings og þjóðar er lögð áhersla á að vinna þvert á flokkslínur hefbundinnar stjórnar og stjórnarandstöðu.

Nota mætti orðið tilraunastjórnmál til að lýsa starfi Hreyfingarinnar, innan þings sem utan. Ef við lítum á starfið sem pólitíska tilraunastarfsemi er mikilvægt að hafa í huga strax í upphafi að aldrei heppnast allar tilraunir eða leiða til þeirrar niðurstöðu sem æskilegust væri, en þá má ekki líta á það sem ósigur eða mistök heldur læra af tilrauninni og reyna nýja aðferð. Þannig er og verður eðli allrar tilraunastarfsemi og það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því, skilja það og gera ráð fyrir því. Þegar tilraun heppnast ekki er það ekki ósigur heldur stöndum við einu skrefi nær lausninni eða réttri leið. Þá er ekkert annað að gera en að standa upp aftur og gera aðra atlögu að verkefninu.

Í starfi Hreyfingarinnar eru, auk stefnuskrárinnar, nokkur mikilvæg leiðarljós svo sem heiðarleiki, virðing fyrir skoðunum annarra innan Hreyfingarinnar sem utan, að hugsa út fyrir ramman og samvinna við sem flesta. Mikið er lagt upp úr samstarfi við grasrótarhópa á þeirra forsendum og þurfa hóparnir eða einstaklingar innan þeirra ekki að styðja Hreyfinguna frekar en þeir vilja. Frekar má segja að Hreyfingin og verkfæri hennar, þar með taldir þingmennirnir, sé þjónustuaðili fyrir grasrótarhópa um góð og þörf málefni. Reynt er að hlusta og taka við boðum til að miðla áfram. Slík samvinna byggir á trausti, virðingu og jafnrétti. Hreyfingin hefur þegar komið að ýmsum málum í tengslum við grasrótarhópa, lagt fram frumvarp, þingsályktunartillögu og ýmsar fyrirspurnir sem ýmist eru unnar af, með eða fyrir grasrótarhópa sem eiga samleið með Hreyfingunni.

Þar sem þingmenn Hreyfingarinnar hafa fullt frelsi í þeim málefnum sem ekki snúa að stefnuskrá Hreyfingarinnar er það að vissu leyti tilviljun hvernig raðast í þann hóp og hvaða reynsla, þekking og áhugamál fylgja þeim hverju sinni. Þeir þingmenn sem nú eiga sæti á Alþingi fyrir Hreyfinguna eru t.d. allir miklir umhverfisverndarsinnar en í stefnuskránni er ekki fjallað um umhverfismál að öðru leyti en að auðlindir þjóðarinnar skuli vera í þjóðareigu.

 

Verk þinghópsins

Þinghópurinn, þótt fámennur sé, hefur strax frá upphafi verið mjög virkur í starfi þingsins. Strax á fyrstu vikum þingsins í maí 2009 tókst að koma hugmyndum Hreyfingarinnar um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna og svo kallaða Lýðræðisstofu að í þingsályktunartillögu um aðildarumsókn að Evrópusmbandinu. Þegar Icesave málið kom inn í þingið í byrjun júní vann Hreyfingin linnulaust að því að ná þverpólitískri samstöðu um málið og gera það aðgengilegra fyrir þjóðina. Áttunda grein Iceasve I laganna frá 28. ágúst er komin beint úr stefnuskrá Hreyfingarinnar.

Hreyfingin hefur lagt fram frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur og frumvarp um lýðræðisvæðingu sveitarstjórna og tekið virkan þátt í vinnu við frumvörp um persónukjör og stjórnalagaþing með þeim árangri að þar eru hugmyndir Hreyfingarinnar að fá hljómgrunn. Hreyfingin hefur einnig lagt fram tvær tillögur til þingsályktunar þar sem önnur kveður á um mótun íslenskrar efnahagsáætlunnar án tilskipana frá AGS og hin snýr að því að gera Ísland að málfrelsismiðstöð heimsins. Eins er Hreyfingin meðflytjandi að frumvarpi um samningsveð sem gerbreytir stöðu skuldara og fékk í gegn að frumvarp um þak á verðtryggingu fái framgang í þinginu. Eru þá mörg góð mál ótalin.

Hreyfingin hefur leitast við að skipa faglega í þær nefndir sem ekki krefjast þingmanna og hefur veitt mikið aðhald vegna skipunar þingnefndar sem á að fara yfir skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um Hrunið og náð þar fram breytingum sem lúta að fyrningu ráðherraábyrgðar.

Hreyfingin hefur einnig vakið athygli á hugmyndinni um aðskilnað ríkis og kirkju og brotið blað með því að mæta ekki í messu við þingsetningu í tvígang. Svo kölluð formannslaun til handa formönnum stjórnmálaflokka og kostuð af skattfé hafa verið afþökkuð.

Þingmenn Hreyfingarinnar hafa opnað gluggann inn á þing með því að skrifa og ræða opinberlega um hvernig þingstörf gagna fyrir sig í raun og veru og með sanni má segja að almenningur hafi aldrei haft jafn gott tækifæri á að fylgjast með hvað er að gerast bak við tjöldin.  Auk þess hafa þingmenn aflað upplýsinga fyrir grasrótarhópa með því að leggja fram fyrirspurnir. Til dæmis varðandi kostnað opinberra aðila vegna hugbúnaðar og í málefnum sjúkraliða vegna vinnuálags.

 
Senda á Facebook

Hvað getum við gert?