Úr stefnuskrá Hreyfingarinnar:

Forsíða            Fréttir            Stefnan            Hreyfingin            Á döfinni
Sveitarfélög fái arðinn af fiskveiðiauðlindinni
Fimmtudagur, 15. nóvember 2012 09:20

Mælt var fyrir frumvarpi Hreyfingarinnar um stjórn fiskveiða á Alþingi í gær.  Markmið frumvarpsins er að breyta skipulagi fiskveiðistjórnunar og sölu sjávarafla.  Þannig verði tryggð ríkari aðkoma sveitarfélaga að arðinum af aflaheimildum og stuðlað að eflingu sjávarbyggða.

Ef frumvarpið nær fram að ganga munu tekjur sveitarfélaga aukast verulega.  Fari allur afli á markað má gera ráð fyrir að leiguverð muni lækka um allt að helming. Ef miðað er við helmingslækkun leiguverðs fyrir þorskígildistonn á markaði í dag, sem er í kringum 318 kr. per kg., en yrði 159 kr. per kg., myndu tekjur Akureyrarbæjar aukast um 3,7 milljarða, Ísafjarðarbæjar um 3,3 milljarða, Norðurþings um 1,5 milljarða, Reykjanesbæjar um 1,9 milljarða og Vestmannaeyja um 4,1 milljarða á ári.

Ljóst er að um er að ræða gríðarlega hagsmuni fyrir sjávarbyggðir um allt land þar sem frumvarpið færir þeim aftur heimildir byggðar á veiðireynslu þeirra og að arðurinn af þeirri auðlind rennur beint til sjávarbyggðanna.

 

Með frumvarpinu er stefnt að því að hvert sveitarfélag á Íslandi fái forræði yfir veiðum á samsvarandi hluta nytjastofna á Íslandsmiðum og nemur samanlagðri aflahlutdeild þeirra fiskiskipa sem skráð voru í viðkomandi sveitarfélagi fyrir gildistöku laga um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, sem meðal annars fólu í sér heimild til kvótaframsals. Að auki stefnir frumvarpið að aðskilnaði veiða og vinnslu og fjárhagslegri endurskipulagningu þeirra útgerðarfyrirtækja  á Íslandi sem hafa skuldsett sig vegna kvótakaupa. Loks stefna lögin að eflingu umhverfisvænna handfæraveiða en þess má geta að kolefnispor veidds togaraþorsks er 5,15 kg. af koltvísýringsígildi en kolefnisspor línuveidds þorsks er aðeins 1,58 kg.

Sérstök athygli er vakin á tveim töflum sem fylgja málinu, annars vegar í greinargerð og hins vegar sem fylgiskjal.  Í töflunum má sjá tilfærslu á aflaheimildum til sveitarfélaga, heimfært á fiskveiðiárið 2010-2011, miðað við upphaflega úthlutun kvóta sem byggði á veiðireynslu á viðkomandi svæði.

Þar sem yfirlýst stefna forsætisráðherra er að breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu mun Hreyfingin í framhaldinu einnig leggja fram þingsályktunartillögu þar að lútandi.

Tengill á málið á vef Alþingis: http://www.althingi.is/altext/141/s/0213.html

 
Senda á Facebook

DSCF4948.jpg
22049_270753289618_603389618_4548165_4916248_n.jpg