Úr stefnuskrá Hreyfingarinnar:

Forsíða            Fréttir            Stefnan            Hreyfingin            Á döfinni
Vilja að 10% geti krafist íbúakosninga í sveitarfélögum og aukna valddreifingu
Fimmtudagur, 25. október 2012 14:29

Þór Saari og Margrét Tryggvadóttir hafa lagt fram frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum.  Með frumvarpinu er lagt til að viðmið um fjölda sveitarstjórnarfulltrúa á Íslandi verði færð til samræmis við það sem þekkist í nágrannalöndunum sem og enn frekari efling íbúalýðræðis þannig að frumkvæði íbúanna í málefnum sveitarfélaga verði eflt og bein aðkoma íbúa að málum tryggð með möguleikum á almennum atkvæðagreiðslum (íbúakosningum).

Frumvarpið felur í sér að ef minnst 10% af þeim sem eiga kosningarrétt í sveitarfélagi óska eftir íbúakosningu skuli sveitarstjórn verða við þeirri ósk.  Einnig að íbúakosning (almenn atkvæðagreiðsla), sé æðsta ákvörðunarvald sveitarfélags. Niðurstaða íbúakosningar sé bindandi fyrir sveitarstjórn og bindandi milli kjörtímabila og geti aðeins önnur íbúakosning hnekkt niðurstöðu fyrri íbúakosningar.

Mikilvægi beinnar aðkomu almennings að stjórn mála er undirstrikað í rannsókn sem hagfræðingarnir Gebhard Kirchgässner og Lars Feld frá St. Gallen birtu árið 1999. Þar greindu þeir efnahagsleg áhrif mismunandi löggjafar um beint lýðræði í svissneskum kantónum. Niðurstaða þeirra var sú að í kantónum þar sem réttur til beins lýðræðis var meiri var efnahagsleg frammistaða betri, skattsvik minni, skuldir kantóna og sveitarfélaga lægri, opinber útgjöld lægri og almenningsþjónusta ódýrari. Á sama hátt komust rannsakendurnir Bloomberg o.fl. (2004) að þeirri niðurstöðu að um það bil 20% meira af opinberum útgjöldum fóru til spillis í ríkjum Bandaríkjanna þar sem borgarar áttu engan kost á því að kalla eftir almennum atkvæðagreiðslum í samanburði við ríki þar sem slíkt fyrirkomulag var við lýði. Það virðist því ljóst að stórfelldur sparnaður getur verið af beinu lýðræði í sveitarstjórnum.

Gildandi lagaákvæði um hámarksfjölda kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum á Íslandi eiga sér hvergi hliðstæðu í Evrópu að því er best er vitað. Til að mynda má benda á ákvæði í sænskum sveitarstjórnarlögum þar sem kveðið er á um lágmarksfjölda kjörinna fulltrúa í bæjar og borgarstjórnum. Ákvæði um lágmarksfjölda eru eins eða svipuð annars staðar á Norðurlöndum og í Evrópu (sjá vef Evrópuráðsins: www.coe.int).  Í janúar 1908 var bæjarfulltrúum í Reykjavík fjölgað í 15. Hundrað og þremur árum síðar eru kjörnir fulltrúar í borgarstjórn Reykjavíkur enn 15 að tölu þótt fjöldi íbúa hafi fimmtánfaldast á heilli öld.


Tengill á málið á vef Alþingis: http://www.althingi.is/altext/141/s/0211.html

 
Senda á Facebook

DSCF4602.jpg
DSCF4638.jpg