Úr stefnuskrá Hreyfingarinnar:

Forsíða            Fréttir            Stefnan            Hreyfingin            Á döfinni
Mælt fyrir frumvarpi um hámarkslaun verkalýðsforkólfa - „Hvað er í gangi hjá Alþýðusambandi Íslands!?“
Miðvikudagur, 24. október 2012 16:56

Þór Saari mælti fyrir lagafrumvarpi á Alþingi í dag sem miðar að því að lögfesta reglu um hámarkslaun forsvarsmanna verkalýðsfélaga og hagsmunasamtaka launafólks þannig að þau geti aldrei orðið hærri en því sem nemur þreföldum lágmarkskjörum umbjóðenda sinna.

Þingmenn Hreyfingarinnar, sem eru flutningsmenn frumvarpsins, telja mikilvægt að sett sé hámark á laun forsvarsmanna verkalýðsfélaga og hagsmunasamtaka launafólks. Að baki slíku hámarki séu rík sanngirnissjónarmið enda séu þessi laun greidd úr sameiginlegum sjóðum verkalýðsins.  Flutningsmenn telja jafnframt rétt að vekja athygli á því að setning hámarks sem er á þennan hátt bundið lágmarkskjörum getur verið forsvarsmönnum mikilvægur hvati til að berjast fyrir bættum rétti félagsmanna þar sem hækkun lágmarkslauna getur leitt til beinnar hækkunar launa þeirra.

Í framsögu sinni kom Þór Saari inn á þá risavöxnu gjá sem orðin er milli forsvarsmanna launþegahreyfingarinnar og almennra félagsmanna.  Hann tók dæmi um risavaxið einbýlishús fyrrverandi forseta ASÍ á Arnarnesinu í því sambandi.

Þá gerði hann nýafstaðið þing ASÍ að umfjöllunarefni og velti upp þeirri spurningu hvort forsvarsmenn launþegahreyfingarinnar séu yfir höfuð að gæta hagsmuna launþega.  Máli sínu til stuðnings rifjaði Þór upp hvernig fór fyrir tillögu Vilhjálms Birgissonar, formanns VLFA, um afnám verðtryggingar á þingi ASÍ, en tillagan var felld.  Sagði Þór verðtrygginguna „mesta bölvald sem íslenskt launafólk hefur þurft að búa við undanfarna áratugi“, hún hefði sett þúsundir heimila á hausinn og stefnt tugþúsundum annarra í alvarlega greiðsluerfiðleika.  Í beinu framhaldi spurði Þór: „Hvað er í gangi hjá Alþýðusambandi Íslands!?“

Þá fjallaði Þór um hvernig fór fyrir tillögu Vilhjálms Birgissonar um aukið lýðræði í verkalýðshreyfingunni á þingi ASÍ; það er að forseti ASÍ yrði kosinn í allsherjaratkvæðagreiðslu meðal allra félaga aðildarfélaga ASÍ.  En þeirri tillögu var sömuleiðis hafnað.  Gagnrýndi Þór hið „leníníska fyrirkomulag“ sem enn er viðhaft við val á forystumönnum verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi.  Fyrirkomulag sem gengur út á að sitjandi stjórn leggi til að uppstillingarnefnd komi með tillögu að nýrri stjórn sem félagsmenn svo samþykkja eða hafna.  Það fyrirkomulag sagði Þór eiga rætur sínar að rekja allt til undanfara rússnesku byltingarinnar.  Í dag væri fyrkomulagið tímaskekkja og tímabært að taka upp lýðræðislegri vinnubrögð.

Í beinu framhaldi lýsti Þór því yfir að endurskoða þyrfti skylduaðild að verkalýðsfélögum eða bjóða upp á valfrelsi um verkalýðsfélag og lýsti yfir vilja til að beita sér fyrir slíkum breytingum á vettvangi Alþingis.

Tengill á málið á vef Alþingis: http://www.althingi.is/altext/141/s/0125.html

 

 
Senda á Facebook

16958_1339527211010_1316047577_30993623_5678263_n.jpg
8828_175528299618_603389618_3756400_1148454_n.jpg